Mismunandi innlegg í taubleyjur
Til þess að njóta velgengis og sleppa við leka og annað vesen er mikilvægt að nota viðeigandi innlegg.
En hvað eru góð innlegg ?
Míkrófíber, bómull, bambus, kolabambus, hampur... Hvað er þetta allt saman og hvernig skiptir þetta máli?
Innlegg eru rakardægi hluti taubleyjunnar og það eru til ótalmargar tegundir. Algengast er að innleggin séu saumuð í þeirri stærð að þau passi sérstaklega vel í vasann á vasableyjum, eitt eða tvö saman.
Sum innlegg eru með smellum svo hægt sé að smella þeim föstum við bleyjuskelina. Sum innlegg eru extra löng svo hægt sé að brjóta þau tvöfalt og ráða því hvar mesta rakadrægning er í bleyjunni. Önnur innlegg eru ferhyrnd eða rétthyrnd til dæmis prefolds sem eru með tveimur saumum svo hægt sé að brjóta þau saman í þrennt.
Gasbleyjur og gubbuklútar eru einnig hentug sem innlegg og hægt er að brjóta þau saman á marga vegu. Innlegg má setja ofan í vasa á vasableyjum eða leggja beint ofan í skelina, við húð barnsins.*
Hér mun ég fara í stuttu máli yfir algengustu efnin í innleggjum og hvernig gott er að raða þeim saman til að fá sem bestann árangur.
Algengustu tegundir efna
*Mikrófíber er gerviefni (polyester). Þessi tegund má alls ekki liggja upp við húð barnsins, getur ollið þurrk og útbrotum. Þetta er langódýrasta innleggið og mjög algengt er að eitt míkrófíber innlegg fylgi ódýrari vasableyjum. Kostur við Míkrófíber er að hann dregur vökva hratt í sig en hann heldur ekki miklum vökva. Míkrófíber innlegg dugar sjaldnast eitt og sér, oftast þarf að bæta við innleggi úr öðru efni eins og t.d. úr bómull eða bambus.
Kostir
Ókostir
Kolabambus. Ef þú sérð svart /grátt innlegg er það að öllum líkindum það sem kallast “kolabambus”. Þessi tegund var vinsæl fyrir þó nokkrum árum en vinsældir hafa farið dvínandi. Nafnið er villandi þar sem það er nánast enginn bambus í þessu efni heldur er þetta gerviefni. Innlegg úr þessu efni eru mjög mjúk og oft frekar þykk. Yfirleitt eru 2-4 mikrófíber lög að innann og kolabambuslag að utanverðu. Þetta innlegg má liggja upp við húð barnsins.
Kostir
Ókostir
Bómull. Gamla klassíska bómullinn hefur þjónustað bleyjuheiminum frá upphafi. Þetta efni er hægt að finna allstaðar. Til dæmis má fá gasbleyjur (gubbuklúta) í rúmfaralagernum og flestum matvöru verslunum. Einnig eru til margar útgáfur sem sérstaklega eru gerðar fyrir taubleyjur eins og “prefold”, þá er búið að sauma efnið saman svo mesta þykktin sé í miðjunni og hægt að bróta innleggið saman auðveldlega á þann hátt sem best hentar barninu. Þetta innlegg má liggja upp við húð barnsins.
Kostir
Ókostir
Bambus er mjög vinsæl innleggja tegund og ekki af ástæðulausu, bambus innlegg eru mjög rakadræg og halda vel vætu. Algengt er að innlegg úr bambus eða bambus & míkrófíber blöndu fylgi vasableyjum í dag. Ókostur við Bambusinn er að ræktun hans og vinna er ekki sérstaklega umhverfisvæn en þó eru til undantekningar og gott er skoða það vel ef maður vill hafa umhverfissjónarmiðin 100%. Þetta innlegg má liggja upp við húð barnsins.
Kostir
Ókostir
Hampur. Stór kostur við þessa tegund er hversu umhverfisvænt það er að rækta og vinna hampinn. Þetta er einnig rakadrægasta innleggið en jafnframt dýrasta. Stór kostur er hversu nett þessi innlegg geta verið og því auðvelt að bæta þeim við. Ég mæli með því við alla að fjárfesta í nokkrum góðum hamp innleggjum/bústerum. Þetta innlegg má liggja upp við húð barnsins.
Kostir
Ókostir
Hvað set ég í bleyjuna ?
Þegar vasableyjan er undirbúin þarf að taka mið af því hvernig “pissari” barnið er. Þetta getur tekið tíma að finna útúr og getur breyst með aldri barnsins. Það sem hentar 4 mánaða gömlu barni hentar eflaust ekki þegar barnið er orðið 1. árs.
Góð leið til að byrja er að setja saman eitt míkrófíber innlegg (ofan) og eitt bambus innlegg (undir). Þá dregur míkrófíber innleggið vætuna í sig hratt og bambus innleggið tekur svo við vætunni hægar en heldur mun meira magni. Þetta er sérstaklega gott fyrir þau börn sem pissa mikið og hratt í einu.
Sum börn pissa lítið í einu og oftar. Þeim börnum gæti hentað betur að hafa tvö bambus innlegg eða eitt innlegg úr bambus og annað úr hampi. Það sem skiptir mestu máli er að prufa sig áfram og eiga innlegg & bústera úr góðum efnum.
En hver er munurinn á innleggi og búster ?
Í raun enginn, þetta er sami hluturinn en oftast eru innlegg stærri og passa í vasableyjur en bústera minni eða þynnri og eiga þá að gefa bara örlítið meiri rakadrægni.
Ef þér finnst eins og bleyjan dugi næstum því alveg, að það vanti bara hálftíma uppá, þá er nóg að setja einn góðann búster í bleyjuna. Það er oft betra val heldur enn að troða öðru innleggi í vasann því þá yrði bleyjan svo stór um sig fyrir barnið.
Sniðugt er að prófa sig áfram með þunn innlegg og bústera, brjóta þá saman í tvennt eða þrennt og setja á “álagsstaði” - að framanverðu fyrir drengi og fyrir miðju hjá stúlkum. Það er mjög oft sem eitt innlegg ásamt góðum samanbrotnum búster á réttum stað getur gert mikið og verið þægilegt fyrir barnið.
Lekar - hvað get ég gert ?
Stundum leka bleyjurnar. Þá þarf að komast að því hvað er að. Stundum eru það lélégar teygjur eða að bleyjan sé ekki rétt sett á. En ef það tvennt er í lagi þarf að skoða innleggin.
Of mikið af innleggjum/ of troðin bleyja getur valdið þrýstingsleka. Stundum eru innleggin alveg gegnsósa eftir stuttann tíma. Þá er gott að endurskoða innleggin, t.d. skipta út míkrófíber fyrir bambus eða hamp, það bæði eykur rakadrægni og minnkar umfang bleyjunnar.
Einnig má hafa í huga að þarfir barna breytast, þau ganga í gegnum þroskaskeið. Til dæmis í kringum 5 mánaða aldurinn fer barnið að pissa meira í einu, oftar og á sama tíma eykst hreyfiþroskinn. Það er yfirleitt á þessum tíma sem taubleyjuforeldrar byrja að lenda í vandræðum ...akkúrat þegar þvottarútínan var orðin góð, allar bleyjurnar farnar að passa svo vel og þetta var byrjað að verða einfalt! Týpískt!
Góð innlegg, sett saman á réttann hátt og góðir bústerar geta lagað þetta vesen.
Gangi ykkur vel!
Athugasemdir